NOTKUN LITA Í VÖRUMERKI OG MARKAÐSSETNINGU

NOTKUN LITA Í VÖRUMERKI OG MARKAÐSSETNINGU


LITASÁLFRÆÐI

Litir gegna mikilvægu hlutverki við að skapa ímynd fyrirtækja og í markaðssetningu á vörum og þjónustu. Með vel ígrunduðu litavali er mynduð sjónræn tenging við gildi og persónuleika fyrirtækisins.


Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar til að komast að því hvað skiptir máli við val í litapallettur fyrirtækja; í vörumerki, umbúðir, vefsíður og annað markaðsefni. Þegar fyrirtæki er í mörkun eða endurmörkun er því gott að nýta litasálfræðina (Color Psychology). Litasálfræðin byggir á því – sem sýnt hefur verið fram á með rannsóknum – að litir geti haft áhrif á hegðun og ákvarðanatöku fólks.


Það er staðreynd að mismunandi litir valda ólíkum hughrifum og kalla þ.a.l. fram tilfinningar og viðbrögð samkvæmt því. Áhrifin geta verið mismikil eftir útfærslum og styrkleika lita en jafnframt einstaklingsbundin, því litir geta haft ólíka merkingu í hugum fólks eftir smekk, menningu, hefðum og öðrum mótandi þáttum.


Eins og gildir um svo margt huglægt er enginn einn stór sannleikur í þessum fræðum en ótal margar rannsóknir staðfesta að áhrif lita og viðbrögð við þeim fylgja nokkrum afgerandi meginreglum. Þess vegna er mikilvægt að litaval fyrirtækja sé vel útfært og endurspegli þá tilfinningu sem þau vilja koma á framfæri. Á sama hátt getur óheppilegt val á litum kallað fram allt aðra tilfinningu en þá sem fyrirtækið hafði í huga til að móta viðhorf gagnvart því. 


HVAÐ ER LITUR?

Litur er sjónræn skynjun okkar á endurkasti ljóss af yfirborði flatar og verður til í samspili tíðnidreifingar ljóssins og sjónskynjunar sem fer fram í auganu, sjóntauginni og heilanum. 


Rannsóknir á sjónskynjun gefa til kynna að fjöldi litaafbrigða sem mannsaugað getur greint skipti milljónum. Náttúran hefur þróað litaskyn mannsins í þeim tilgangi að auðvelda okkur að greina á milli hluta, skynja hættu, hjálpa við val á fæðu og hrífast af fegurð í náttúrunni.


Litur verður til við það að rafsegulsvið myndar bylgjur sem berast um rúmið líkt og bylgjur á vatnsfleti eða hljóðbylgur í lofti. Ljósið sem við sjáum eru rafsegulbylgjur á tilteknu tíðnibili sem hafa öldulengd á bilinu frá ca. 400 til 700 nanómetra en 1 nanómetri er einn milljarðasti hluti (10-9) úr metra.


Innan þessa þrönga bils bylgjulengda rúmast öll litbrigði regnbogans; á öðrum endanum er útfjólublátt ljós með bylgjulengd nærri 400 nanómetrum, síðan blátt ljós, svo grænt, þá gult og á hinum enda litrófsins er rautt ljós með lengstu bylgjulengdina. Það að mannsaugað nemi aðeins rafsegulbylgjur á þessu þrönga tíðnibili hefur verið tengt því að þetta eru einmitt þær bylgjur sem berast vel í vatni og sjón þróaðist fyrst í lífverum í hafinu.


Jafnframt eru augun full of vökva sem ljósið þarf að fara gegnum áður en það ertir tauganema á nethimnunni í augnbotninum. Þessir nemar eru tvenns konar og kallast stafir og keilur. Stafir eru talsvert ljósnæmari og eru virkir þegar dimmir en þá sjáum við enga liti. Mannsaugað hefur þrjár gerðir af keilum, þær eru virkar í dagsbirtunni og því sjáum við liti.


Í litasálfræðinni eru litir sem samanstanda af styttri bylgjulengdum flokkaðir sem róandi eða kaldir (grænn, blár) en þeir sem hafa lengri bylgjulengdir örvandi eða heitir (gulur, rauður). Hreinir litir koma fram þegar ljósið hefur nær eingöngu þá tíðni sem samsvarar viðkomandi lit. Breiðari tíðni skapar blandaða liti en alla liti má fá fram með samruna þriggja aðallita.

 

KRÓMATÍSKI LITAHRINGURINN

Krómatískur litahringur (eða litahjólið) er hringlaga skýringarmynd yfir liti sem var fyrst búin til árið 1666 af Isaac Newton. Hann byggist á þremur aðallitum (grunnlitum) sem eru rauður, gulur og blár og þremur aukalitum (viðbótarlitum) sem eru grænn, appelsínugulur og fjólublár (þ.e. blöndun grunnlitanna). 


Viðbótarlitur er sá í andstöðu við valinn grunnlit í litahringnum og hliðstæðir litir eru þrír saman, þ.e. litur ásamt þeim tveimur sem eru sinn hvoru megin við hann í tólf lita hringnum.


Samhljómur næst með því að beita saman hliðstæðum litum eða viðbótarlitum samkvæmt litahjóli.



SAMHENGI LITA


Það skiptir mjög miklu máli í hvaða samhengi litir eru settir upp á hvað merking er lögð í þá. Umferðarljós eru dæmi um rótgróið, alþjóðlegt fyrirbæri þar sem litir hafa fengið fastsett hlutverk og sú túlkun á grænum, gulum og rauðum hefur verið yfirfærð á alls kyns aðra hluti.


Dæmi um mismunandi litanotkun eftir menningarsvæðum er að rauður er litur repúblikana sem eru lengst til hægri í Bandarískri pólitík á meðan rauður í okkar heimshluta er einkenni jafnaðarmanna og flokka til vinstri og svo er auðvitað kommúnismi á heimsvísu í rauðum lit. 


MERKING ALGENGUSTU LITA SAMKVÆMT LITASÁLFRÆÐINNI


🟥 Rauður 

Samkvæmt litasálfræði er rauður sterkasti liturinn og getur táknað kærleika og ást, spennu, orku, ástríðu og hugrekki en einnig verið merki um hættu, reiði og ofbeldi. Rauður kallar fram sterkustu tilfinningarnar og því er skynsamlegt að nota hann sparlega á vel ígrundaðan hátt. Rautt er oft notað í CTA á vefsíðum, afsláttarbólur í blaðaauglýsingum og annað sem kallar á snör viðbrögð, því hann fangar athygli mjög vel. Hann er líka talinn auka á matarlyst og er t.d. mikið notaður sem aðal- eða aukalitur í merkjum alþjóðlegra fyrirtækja með skyndifæði og drykki; s.s. McDonalds, Burger King, KFC, Coca Cola, Pepsi og Þykkvabæjar!


🟧 Appelsínugulur

Appelsínugulur litur táknar hamingju, ævintýri, eldmóð, sköpun, velgengni og jafnvægi. Þetta er litur sem lífgar upp á allt efni; hann fangar vel athygli og er líkt og rauður oft notaður í CTA á vefsíðum. Nokkur íslensk fyrirtæki velja að nota appelsínugulan, s.s. Hagkaup og ON – meðal alþjóðlegra vörumerkja sem ríma vel við helstu merkingar litarins má nefna Timberland, JBL, Strava, Harley Davidson, Lufthansa og MasterCard.


🟨 Gulur 

Samkvæmt litasálfræðinni er sterkasta tenging gula litarins við sólina, hann vekur tilfinningu um hlýju og bjartsýni; hamingju og æðruleysi, vöxt og þroska. Gulur er áberandi og sá litur sem við tökum best eftir og sérstaklega með jaðarsjóninni; hann er því mikið notaður í öryggis-, umferðar- og hættumerkingar. Vörumerki nota oft gulan lit til að tákna eitthvað jákvætt og hagstætt; má nefna verslanir eins og Bónus, Krónuna, ÓB og IKEA þó þar sé um leið vísað til einkennislita Svía. Gulur í bland með öðrum litum er talinn skapa jákvæðara viðmót notenda, t.d. á vefsíðum, hann getur verið áhrifaríkur í vörumerkjum vegna þess hve auðvelt að taka eftir honum, en það getur líka verið skynjað sem brella til að laða að augun.


🌸 Bleikur 

Samkvæmt litasálfræðinni getur bleikur táknað kvenleika, umhyggju, glettni, sakleysi, ást, hamingju og rómantík. Bleikir litir eru því algengir í vörumerkjum sem ætlað er að höfða til kvenna eða vísa til málefna þeim tengdum, má t.d. nefna Victoria Secret og Bleiku slaufuna. Bleikt er mikið notað í umbúðir leikfanga og annars varnings sem ætlaður er fyrir stelpur, þó í dag sé litið svo á að með því sé kynt undir hugmyndir um staðalímyndir kynjanna. Orkan er vörumerki sem notar áberandi bleikan lit og mikið af honum; kannski mest til gamans gert?


🟩 Grænn   

Grænn er frískandi og friðsæll litur með sterka tengingu við náttúru og umhverfi, útivist og svo peninga. Vöxtur, frjósemi, heilbrigði og jafnvægi eru meðal jákvæðra merkinga fyrir grænan en hann hefur líka neikvæðar tengingar eins og við öfund. Meðal fyrirtækja sem velja grænan lit má nefna í heilbrigðisgeiranum Lyfju og Actavis; tengt umhverfismálum Sorpu og Endurvinnsluna, í peningastarfsemi Sparisjóðina og TM og fyrirtæki sem tengjast landbúnaði eru síðan meira og minna með grænan lit líkt og Framsóknarflokkurinn. 


🟦 Blár 

Í litasálfræði er blái liturinn með sterka tengingu við hafið og himininn. Vald, stöðugleiki, skynsemi og fagmennska, ró og traust eru meðal þeirra tilfinninga sem bláum er ætlað að kalla fram og hann er algengasti liturinn í vörumerkjum, þá ýmist í aðal- eða aukahlutverki. Blár getur einnig haft sínar neikvæðu merkingar og tengst þunglyndi, kuldatilfinningu og karlavaldi. Tæknirisar eins og Facebook, Twitter og Skype velja bláan lit og meðal íslenskra fyrirtækja má nefna Samherja og Brim í útgerðinni; í flutningum eru Icelandair, Eimskip og Samskip öll í bláu og meðal fjölmiðla nota RÚV, mbl.is, Vísir og Fréttablaðið allir bláa liti.


🟪 Fjólublár   

Fjólublár er konunglegur litur, tengdur andlegu og veraldlegu valdi; lúxus, visku, innsæi og gáfum. Fólk með fjólubláan lit í árunni er sagt vera berdreymið og næmt, jafnvel göldrótt! Fjólublár getur staðið fyrir metnað, kraft og ríkidæmi en óhófleg notkun hans getur vakið gremju hjá fólki og álitið merki um hroka. Hann fer vel með öðrum litum, t.d. í vefborðum, sem áherslulitur í grafík og í CTA-hnöppum eins og t.d. á Já.is. Dæmi um alþjóðlega notkun eru Qatar Airways, FIFA World Cup Qatar, Yahoo, Fedex og Premier League (enska boltinn). WOW air er þekktasta dæmið um íslenskt fyrirtæki sem einkenndi sig með fjólubláum lit.


⬜️ Hvítur 

Í litasálfræðinni er hvítur sagður tákna sakleysi, heiðarleika og hreinleika. Hann merkir einnig nýtt upphaf og sannleika og trúarlega er hann talinn vera nátengdur almættinu. Á örlítið neikvæðari nótum eru svo augljósar tengingar við kulda og vetur. Algengasti bakgrunnurinn á vefsíðum er hvítur, því með svörtu letri er það besta samsetningin upp á læsileika að gera. Hvítt letur eða tákn á svörtum fleti er algengt sem lógó fyrirtækja, þá oft með einum aukalit, má t.d. nefna Deloitte, Adidas og Puma og svo íslensku vörumerkin Brimborg og Já.is. 


⬛️ Svartur

Svartur litur getur haft duldar merkingar en gefur líka til kynna vald, kraft, aga, þekkingu, glæsileika, velmegun og fágun. Aftur á móti getur hann einnig endurspeglað neikvæðni, íhaldssemi og klókindi og kallað fram tilfinningar eins og sorg og reiði og er tákn að því leyti. Það er vinsælt í alþjóðlegri smásölu að nota svartan lit og mörg vörumerki í tískuheiminum eins og Gucci, Prada, Chanel og Nike nota svart lógó og styðja við það t.d. svörtum bakgrunni á vefsíðum, svarthvítum myndum ásamt hvítum og gráum tónum fyrir samræmi. Vörumerki sem nota svört lógó eru oftast örugg og rótgróin og stóla á orðspor fremur en liti til að sýna fram á styrk sinn, stöðugleika og gildi. Notaður í umbúðir getur svartur skapað kröftug áhrif og gefið til kynna stílhreina vöru eða jafnvel lúxus.


⬜️ Grár 

Grár er litur hlutleysis og jafnvægis enda liggur hann eins og skuggi milli þess hvíta og svarta. Hann táknar styrk og stöðugleika; er góður í letur, fyrirsagnir og grafík; hentar vörum sem eiga að höfða til fjöldans því hann hefur ekki mikil áhrif á tilfinningar. Apple er kannski besta dæmið um vörumerki sem notar gráan lit í miklu samspili við hvítan. Tölvur og tæknivörur eru gjarnan í gráum tónum, hvítum eða málmlitum því hlutlausir litir fæla engan frá. Bílaframleiðendur nota grátt í útfærslum á sínum merkjum, s.s. Toyota, Lexus, Nissan o.fl.


🟫 Brúnn

Brúnn er litur með tengingu við jörð og náttúru og kallar fram tilfinningu fyrir þægindum, stöðugleika og öryggi. Í markaðssetningu er því algengt að nota brúnan lit annars vegar fyrir náttúrulegar vörur og hins vegar umbúðir brúnna matvæla á borð við kaffi og súkkulaði; s.s. Kókómjólk, Cocoa Puffs, Snickers o.s.frv.. Brúnn er einnig notaður í lógó og jafnvel texta á vefsíðum á hvítum bakgrunni; dæmi um það eru vefsíða Te & kaffi þar sem lógó og texti eru í brúnum lit. UPS er annað dæmi; brúnt í lógói og vefsíðutexta, aukalitir gulur og grænn sem undirstrikar náttúrulega nálgun og staðsetur UPS sem áreiðanlegt, jarðbundið fyrirtæki sem er það sem fólk vill þegar það nýtir sér flutningaþjónustu. 


Samantekin helstu tákn litanna


♥️ Rauður: eldur, kærleikur, spenna, orka, virkni, ástríðu, hugrekki – hætta, reiði, ofbeldi 

🍊 Appelsínugulur: hamingja, ævintýri, eldmóður, sköpun, velgengni, jafnvægi 

🍋 Gulur: sólskin, hlýja, bjartsýni, hamingja, sátt, æðruleysi, lipurð, vöxtur, viska 

🌸 Bleikur: kvenleiki, umhyggja, glettni, sakleysi, æska, ást, hamingja, rómantík 

☘️ Grænn: náttúra, umhve⬜️rfi, útivist, peningar, vöxtur, frjósemi, heilbrigði, jafnvægi – öfund 

🦋 Blár: himinn og haf, vald, skynsemi, sjálfstraust, ró, traust – þunglyndi, kuldi, karlavald

💟Fjólublár: andlegt og veraldlegt vald, lúxus, viska, metnaður, kraftur, ríkidæmi – hroki 

🕊 Hvítur: nýtt upphaf, sakleysi, heiðarleiki, hreinleiki, sannleikur – ís, kuldi, vetur 

⚫️ Svartur: dulúð, vald, orka, þekking, glæsileiki, velmegun, lúxus, – neikvæðni, íhald, klókindi

🌚 Grár: hlutleysi, jafnvægi, styrkur, stöðugleiki

🍂 Brúnn: jörð, náttúra, þægindi, áreiðanleiki, öryggi


Share by: