Endurmörkun Instagram og WhatsApp – Mun hún virka?

Tveir risar í stafræna heiminum, Instagram og WhatsApp ( sem báðir eru í eigu Facebook), eru að fara að ganga í gegnum endurmörkun ef marka má nýjustu fréttir. Instagram mun í kjölfarið nefnast „Instagram from Facebook“ og WhatsApp „WhatsApp from Facebook“. Talsmenn Facebook staðfestu orðróminn og segja aðgerðirnar vera lið í að gera það skýrara hvaða vörur og þjónusta eru hluti af Facebook. 

Þessi nýja stefna mun víst hafa sprottið af óánægju stofnanda Facebook, Mark Zuckerberg, með að fyrirtækið njóti ekki heiðurs af vinsældum Instagram og WhatsApp en samkvæmt könnunum vita minna en helmingur Bandaríkjamanna af tengslum Instagram og Facebook. Þessi væga tenging milli vörumerkjanna hefur löngum þótt þjóna öllum hagsmunaaðilum best, sérstaklega í ljósi þess að unglingar fóru að yfirgefa Facebook fyrir Instagram því þeim þótti Instagram meira kúl. Nú er þó annað uppi á teningnum. 

Fyrst eftir að Instagram og WhatsApp voru keypt af Facebook (2012 og 2014) lét fyrirtækið stofnendurna ráða ferðinni og hvatti þá til að þróa miðlana sjálfstætt áfram þrátt fyrir að ýmsir þættir eins og sala og innviðir þjónustunnar væru í umsjón Facebook. En nú hafa allir stofnendur Instagram og WhatsApp hætt – aðallega vegna óánægju með afskipti Facebook af miðlunum. Auk endurmörkunar Instagram og Facebook hefur Mark Zuckerberg einnig viðrað hugmyndir sínar um nýjan miðil sem sameini Facebook, Instagram og WhatsApp í eina notendaupplifun og eru teikn á lofti um að slík sameining sé í undirbúningi. Til dæmis hefur hópurinn sem sér um einkaskilaboð Instagram verið sameinaður hópnum sem sér um Facebook Messenger. 

„Sú leið sem þeir eru að fara kemur ekki á óvart.“ segir Sigurður Svansson, yfirmaður stafrænu deildarinnar hjá Sahara. „Einna helst vegna þess að Facebook hefur verið undir smásjáinni undanfarna mánuði vegna ýmissa neikvæðra mála á meðan Instagram og Whatsap hafa aukið við sig vinsældir. Ef horft er enn lengra fram í tímann þá má velta fyrir sér hvort að Mark sé með þau háleitu markmið að sameina þau fjöldamörgu fyrirtæki og samfélagsmiðla sem fyrirtækið hefur keypt á síðustu árum undir einn hatt og búa til einn ofursamfélagsmiðil fyrir USA og Evrópu eins og WeChat er í Kína.“

Endurmörkunaraðgerðir eins og tilkoma heitanna „Instagram from Facebook“ og „WhatsApp from Facebook” eru ekki með öllu óþekktar. Fyrir meira en áratugi síðan gekk Microsoft í gegnum tímabil þar sem vörumerkinu Windows var skeytt framan við vöruheiti svo úr urðu óþjál vöruheiti eins og „Windows Live Search“ og „Windows Live Hotmail“ sem entust ekki lengi og breyttust fljótt í Bing og Outlook.com. Hvernig fer með  „Instagram from Facebook“ og „WhatsApp from Facebook” verður tíminn að leiða í ljós en harla ólíklegt verður að teljast að í daglegu tali verði miðlarnir kallaðir annað en sínum upprunalegu nöfnum. 

Siggi Svans
Co-Founder & Head of Digital
siggisvans@sahara.is
8654380
Um höfundinn

Sigurður Svansson er einn af stofnendum SAHARA. Í dag starfar hann sem yfirmaður stafrænnar deildar fyrirtækisins þar sem hann leiðir áfram fjölbreytt verkefni á vegum fyrirtækisins.