5 mistök í markaðssetningu með myndböndum og hvernig best er forðast þau.

Myndbönd eru eitt öflugasta tólið sem við höfum í markaðssetningu á netinu. En það er ekki sama hvernig myndböndin eru gerð eða hvernig þau eru notuð. Sahara tók saman algengustu mistökin sem fólk er að gera í markaðssetningu með myndböndum og leiðir til að forðast þau. 

#1 Að ætla sér að eitt myndband nái of mörgum markmiðum

Ein af bestu leiðunum til að ná árangri með markaðssetningu er að hanna allt efni með strategísk markmið í huga. Margir hafa þetta í huga við hönnun heimasíða og sölusíða o.s.frv. en gleyma því svo þegar kemur að myndböndum og ætla myndbandinu allt of mörg markmið. Ef ætlunin með myndbandi er að fá mikil áhorf, fjölga fólki í áskrift, verða #1 í leitarniðurstöðum, leiða fólk að viðeigandi vefsíðu, safna netföngum, auka sölu o.s.frv. og frv. eru mestar líkur á að myndbandið muni ná engu af markmiðunum. 

Sahara mælir frekar með því að framleiða hvert myndband með eitt ákveðið markmið í huga og helst eitt af eftirfarandi:

  1. Að vera auðveldlega uppgötvað.
  2. Að byggja samfélag.
  3. Að auka sölu.

Það kemur sér ekki vel að blanda þessu saman of mikið. Strategían á stafrænum miðlum verður mun áhrifameiri þegar maður sníður hvert myndband að einu þessara markmiða. 

#2 Að tapa áhorfendum í of löngum inngangi

Stór mistök sem við sjáum fólk gera með myndböndum á Facebook og Instagram eru þegar því mistekst að búa til efni sem er klæðskerasaumað sérstaklega fyrir þessa miðla og hegðun þeirra sem nota þá. 

Til dæmis vitum við að meðal tímalengd myndbandsáhorfa á Facebook er u.þ.b. Sex sekúndur. Það þýðir að maður hefur bókstaflega 6 sekúndur til að ná athygli áhorfandans til að sannfæra hann um að halda áfram að horfa.

Við sjáum oft myndbönd sem byrja á löngum, ómarkvissum inngangi eða fallegu „B-roll“ myndskeiði (tal undir mynd) sem hefur samt ekkert raunverulegt innihald. Það skiptir engu máli hversu gott efni maður er með. Ef manni lánast ekki að fá áhorfandann til að horfa lengur en þessar fáu fyrstu sekúndur sér enginn gullið sem bíður þegar líður á myndbandið.

Annað mikilvægt í þessu er að meirihluti notenda á þessum miðlum horfa á öll myndbönd án hljóðs sem þýðir að maður þarf að ná athyglinni án þess að treysta á hljóð.

Að mati SAHARA er lausnin annars vegar að bæta grafík með fyrirsögnum og textun við öll myndbönd sem maður hleður upp og hins vegar að vera viss um að allt myndefni sé grípandi og höfði til markhópsins án þess að treysta á hljóð. Segjum til dæmis að maður sé að selja skíðavörur. Þá er gráupplagt að skella sér upp í brekkurnar og fanga lifandi myndir af vettvangi. Ef það er skíðafólk í Reykjavík þá eru það Bláfjöll, fyrir Norðlendinga væri það Hlíðarfjall. 

#3 Að horfa framhjá algengum leitarorðum fyrir tiltekna vöru eða þjónustu.

Eitt af stærstu mistökum í markaðssetningu með myndböndum sem við sjáum er þegar fólk framleiðir efni sem það heldur að markhópurinn og draumakúnninn vilji í stað þess að einblína á hvað fólk raunverulega þarf – þ.e. það sem það er að skrifa á leitarvélunum. 

Það er oftar en ekki ein af ástæðunum fyrir að myndbönd eru ekki uppgötvuð á netinu, fá ekki áhorf og verða ósýnileg nokkrum vikum eða jafnvel dögum eftir að þeim er hlaðið upp.

Sérfræðingar Sahara mæla með mjög einfaldri lausn: Einfaldlega að gera einfalda lykilorðaleit til að komast að því hvað líklegustu viðskiptavinirnir eru að leita að, kynna sér umferðina í kringum slík lykilorð á mánuði og búa svo til myndbönd sem eru strategískt byggð á þeim. Það mun gefa efninu mestan möguleika á að birtast í leitarniðurstöðum á miðlum eins og Google og Youtube. 

Keywords Everywhere er ókeypis tengiforrit (plugin) fyrir leitarvélar sem hjálpar manni að bera kennsl á mikilvægustu málefnin og sýnir umferðina sem tengist þeim í samhengi við sjálfvirka innfyllingu (autofill) í Google- og Youtube-leitum. 

#4 Að nota ekki sérsniðið efni fyrir hvern miðil

Fólk gerir gjarnan þau mistök að nota rangt efni fyrir miðilinn sem það er að vinna með. Til dæmis með því að búa til langar auglýsingar fyrir Youtube „bumper ads“ þar sem eingöngu fyrstu 6 sekúndurnar skipta mestu máli. 

Instagram er sá miðill sem hefur verið í langhröðustum vexti undanfarin ár. En í efnissköpun fyrir Instagram er manni nokkuð þröngur stakkur sniðinn þar sem miðillinn er mun hraðari heldur en t.d. Facebook. Myndband í venjulegri Instagram færslu má t.d. ekki vera lengri en ein mínúta. Með tilkomu Instagram TV opnaðist fyrir lengri myndbönd á miðlinum og nýleg uppfærsla á Instagram býður svo uppá bráðsniðugan möguleika sem er að vera með einnar mínútu „preview“ á lengri myndböndum í venjulegri færslu sem leiðir svo áhorfandann inn í Instagram TV þar sem hægt er að horfa á allt myndbandið. Þess vegna skiptir miklu máli að byrjunin og uppbygging myndbandsins sé sem áhugaverðust.  Lengri myndbönd henta ekki á miðlinum eins og staðan er í dag. Sahara mælir með þremur til fimm mínútum á hvert myndband á Instagram TV þar sem sú tímalengd hefur verið að koma best út. 

Annað mikilvægt varðandi Instagram TV er að óháð árangri myndbands á öðrum miðlum fer aldrei vel á því að endurnýta það inni á Instagram. T.d. virkar frábært Youtube- eða Facebook-myndband ekki endilega vel. Hver kannast ekki við að sjá myndband í Instagram Stories sem er ekki skalað rétt? Efni sem er sérstaklega gert fyrir Instagram virkar best á sínum heimamiðli. Eins með aðra miðla. 

#5 Að gleyma mikilvægi tilfinningatengsla viðskiptavinarins við vöruna

Myndband getur verið eitt af sterkustu verkfærum sem við höfum í markaðssetningu. En fólk hefur tilhneigingu til að flýta sér um of að lokamarkmiðinu eða kaupunum sjálfum. Að fá áhorfendur til að tengjast vörunni tilfinningalega áður en kemur að kaupunum er lykillinn að árangri til framtíðar. En hvernig byggir maður upp tilfinningatengsl neytenda við vöru? 

Sahara mælir með því að búa til mörg myndbönd sem einn rauður þráður eða ein saga gengur í gegnum og skapar umtal og svörun á netinu. Ef rétt er staðið því verður varan jafn mikið áhorfandans eins og framleiðandans. 

mælir með því að búa til mörg myndbönd sem einn rauður þráður eða ein saga gengur í gegnum og skapar umtal og svörun á netinu. Ef rétt er staðið því verður varan jafn mikið áhorfandans eins og framleiðandans. 

Það er mjög mikilvægt að greina alla svörun svo hægt sé að beina myndböndunum í réttan farveg. Svörun getur til dæmis verið að horfa ákveðið langt inn í myndband. Sahara hefur reynst vel að búa til eitt burðarmyndband sem kynnir vöruna almennt og svo nokkur smærri myndbönd til að fylgja því eftir.

 Þeir sem horfa ákveðið langt inn burðarmyndbandið fá svo næst styttri búta eða viðtöl við traustvekjandi fólk sem notar vöruna. Þeir sem horfa ákveðið langt inn í það myndband fá síðan vörumyndband sem sýnir hvernig varan er notuð og af hverju hún er betri en vara samkeppnisaðilans og svo koll af kolli allt þangað til að kemur að kaupunum sjálfum en á þeim tímapunkti er búið að byggja upp tilfinningatengsl neytandans við vöruna sem gerir hann líklegri til að mæla með henni við aðra, líklegri til að kaupa aftur og líklegri til að sýna svörun á samfélagsmiðlum tengt vörunni. 

Siggi Svans
Co-Founder & Head of Digital
siggisvans@sahara.is
8654380
Um höfundinn

Sigurður Svansson er einn af stofnendum SAHARA. Í dag starfar hann sem yfirmaður stafrænnar deildar fyrirtækisins þar sem hann leiðir áfram fjölbreytt verkefni á vegum fyrirtækisins.