Hvað eru fyrirtæki að auglýsa?

Í upphafi árs má segja að mikið brimrót hafi verið í kringum Facebook. Í kjölfarið lofaði Facebook ýmsum aðgerðum til að bæta gagnsæi og bæta upplifun notenda á samfélagsmiðlinum. Þar voru m.a tilgreindar aðgerðir til að gera vafasömum miðlum erfiðara fyrir að dreifa fölskum fréttum og öðrum ósannindum.

Nú í lok júní uppfyllti Facebook eitt af þeim loforðum sem þeir settu fram í apríl. Sú aðgerð snéri að því að auka verulega gagnsæi í auglýsingum sem birtast notendum Facebook.

Facebook bætti við nýrri „Info & Ads“ virkni sem gerir öllum notendum mögulegt að skoða allar virkar auglýsingar á tiltekinni Facebook síðu. Þar gefst notendum einnig möguleiki á því að sjá hvenær viðkomandi síða var stofnuð og hvort að nafni hennar hafi verið breytt nýlega. Þarna birtast allar auglýsingar sem viðkomandi síða er með í gangi, óháð því hvort að sá notandi sem er að skoða yfirlitið sé í markhópnum eða ekki. Jafnframt er hægt að skoða auglýsingar frá öllum þeim löndum sem viðkomandi síða er að birta. Þarna birtast sömuleiðis þær auglýsingar sem viðkomandi síða er að birta á Instagram, Messenger og Audience Network.

Fyrst og fremst eru þetta góðar breytingar fyrir notendur Facebook þar sem þeim gefst nú kostur á því að skoða betur hver sé á bakvið þær auglýsingar sem þeim birtast og þannig tekið upplýstari ákvörðun um hvort viðkomandi auglýsanda sér treystandi.

Þessi virkni er sömuleiðis spennandi fyrir auglýsendur og markaðsfólk þar sem þeim gefst nú tækifæri með auðveldum hætti að skoða hvað samkeppnin og aðrir eru að gera í sínum markaðsaðgerðum, hvort sem það er á Íslandi eða í Albaníu.

Virknin er bæði aðgengileg í farsíma og tölvu. Í tölvu er hún flipinn sýnilegur í neðst í valmyndinni á Facebook síðu viðkomandi fyrirtæki en í farsíma er má sjá lítinn hnapp á covermynd síðunnar.

Carousel auglýsing frá Nike sem er að birtast í Bretlandi og þar snýst eðlilega allt um Enska landsliðið sem er í þann mund að koma með fótboltann heim.

Í Frakklandi virðist þó áherslan vera á Tennis og Nike ekki eins upptekið að því að tengja sig við gott gengi Frakka á HM.