Nýjasta útspil Instagram býður YouTube birginn

Nú þegar Instagram er búið að ganga frá Snapchat virðist YouTube vera næsta bráðin.

Síðastliðinn miðvikudag, 20. júní, tilkynnti Instagram, sem er í eigu Facebook, að nýjasta viðbótin við forritið væri sérstök sjónvarpsrás sem nefnist IGTV.

Með viðbótinni geta allir notendur Instagram sett inn allt að 10 mínútna löng myndbönd, en stjörnur á borð við Rúrik Gíslason, sem hafa mikinn fjölda fylgjenda, geta sett inn allt að klukkustundar löng myndbönd! Þetta er gífurleg breyting frá fyrri myndbandsstöðlum Instagram og býður upp á ótal tækifæri.

Instagram hefur um nokkurt skeið kappkostað að ná til yngri kynslóða sem nota farsímann í auknum mæli til að horfa á myndbandsefni, en rannsóknir sýna að ungmenni horfa um 40% minna á sjónvarp nú en fyrir 5 árum.

Gárungar telja að með þessu útspili sé Instagram að bjóða YouTube birginn. Á sama tíma og IGTV var kynnt til sögunnar tilkynnti Instagram að notendur forritsins væru nú komnir yfir 1 milljarð! Engin tilviljun réði því að þessar tvær stóru tilkynningar komu á sama tíma; Instagram vill sýna YouTube stjörnum að efni þeirra gæti jafnvel náð enn betri dreifingu á þeirra miðli.

YouTube var þó ekki lengi að svara. Aðeins degi eftir tilkynningu Instagram kynnti YouTube til leiks breytingar sem auðvelda myndbandsáhorf í farsímum til muna, ásamt loforði um að styðja framleiðendur enn betur við að kynna efni sitt. Stríðið um snjallsímakynslóðina er greinilega hafið!

Enn er þó ýmsum spurningum ósvarað þegar kemur að IGTV: Hvernig munu stjörnur miðilsins fá greitt? Munu þær eiga rétt á hluta af gífurlegum auglýsingatekjum miðilsins? Hvaða siðferðisreglum mun miðillinn fylgja þegar kemur að áróðursmyndböndum? Mun miðillinn einnig sækja á fartölvunotendur?

Það verður áhugavert að fylgjast með þróun IGTV og einnig hvort Íslendingar, sem almennt þykja nýjungagjarnir, verði duglegir að notast við forritið. Fyrirtæki á borð við Origo hafa nú þegar byrjað að nýta sér vettvanginn og sett inn skemmtilegt efni.

Það er svo sannarlega óhætt að segja að það séu spennandi tímar framundan. Við hjá Sahara munum að minnsta kosti nýta okkur þennan skemmtilega miðil til hins ýtrasta!

 ARNAR GUNNARSSON Samfélagsmiðlafulltrúi ARNAR GUNNARSSON Samfélagsmiðlafulltrúi